Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðirTrúarjátning Bænahússins

Frelsun mannsins
Við trúum því að við frelsumst fyrir náð. Það er gjöf Guðs sem fæst fyrir trú á Jesú Krist. Ekkert sem við framkvæmum getur leyst okkur. Þessi sami kraftur helgar okkur og umbreytir okkur í átt að ímynd Krists.   Fyrirgefning syndanna og eilíft líf er áunnið fyrir sanna iðrun og trú á hið heilaga blóð Drottins Jesú Krists.

"Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð." (Róm.3:23)

"Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf." (Jóh.3:16)

"Hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða" (Róm.10:13)

"Og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd."  (1.Jóh.1:7)

"Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis." (Róm.10:9-10)

Jesús sonur Guðs
Við trúum því að Jesús Kristur sé Guð holdi klæddur, að hann hafi fæðst af hreinni mey og verið getinn af Heilögum Anda.  Við trúum því að hann hafi lifað syndlausu lífi og gefið sjálfan sig sem hinn fullkomna fórn með friðþægingardauða sínum.  Hann var grafinn og reis upp á þriðja degi.  Með blóði Hans sem var úthellt á krossinum fengum við fyrirgefningu synda, frjálsan aðgang að Guði og eilíft líf.  Við trúum að hann hafi verið gjörður bæði að Drottni og Kristi (Post 2:36) og hann sé eini meðalgangarinn milli Guðs og manna (I Tím 2:5).

Heilög ritning
Við trúum því að aðeins hinar sextíu og sex bækur biblíunar séu innblásnar af Heilögum Anda.  Þær hafa úrslitavald um það hver við erum og hvernig við lifum. (II. Tím 3:16).

Niðurdýfingarskírn í Jesú nafni
Við trúum því að fólk verði að taka sjálft ákvörðun hvort það vilji skírast í vatni.  Samkvæmt hinni heilögu ritningu er skírnin niðurdýfing í vatni, í nafni Drottins Jesú Krists sem er mynd af greftrun með Kristi (Róm. 6:1-4), og er ætluð þeim sem trúa og hafa gjört iðrun.
"Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda." (Post.2:38)

Guðdómurinn
Við trúum því að Guð faðirinn, Guð sonurinn og Guð heilagur andi sé einn Guð sem birtist í þremur myndum. Þeir eru fullkomlega jafnir og fullkomlega eitt.

Skírn í Heilögum Anda
Skírn í Heilögum Anda er gjöf Guðs til handa öllum trúuðum og samfara henni er tákn tungutals eins og Andinn gefur að mæla (Post. 2:4).  Níu gjafir Andans eru einnig veittar á sama hátt (I Kor. 12:4-11).

Fimmfalda þjónustan
Við trúum því að Jesús útvelji sjálfur þá sem eiga að gegna þjónustu postula, spámanns, trúboða, hirðis og kennara.  Fimmfalda þjónustan er til að hafa breidd í þjónustunni og hefur tvö megin hlutverk í líkama Krists.  Þeir eiga að hjálpa fólki að vaxa til að verða andleg brúður Jesú Krists, finna sinn tilgang og láta þeim þjónustu í té.  (Ef. 4:11-16)

Sköpun mannsins, fall og endurlausn

Maðurinn er skapaður í mynd og líkingu Guðs (I. Mós. 1:26) Vegna blekkingar og óhlýðni að yfirlögðu ráði við boð Guðs varð maðurinn gjörspilltur. Vegna hinnar upprunalegu misgjörðar Adams rann synd og dauði til allra manna (Róm. 5:12). Eina frelsisvon hins fallna manns er í Drottni Jesú Kristi. (Post. 4:12).

Andlegur vöxtur
Við trúum að kraftur Guðs sé megnugur að leysa okkur undan refsingu syndarinnar, sem er dauði og helja. Hann er megnugur að leysa okkur undan innri synd, sem opinberast í holdlegu sjálflífi. Hann er megnugur að leysa okkur frá syndinni sem aðskilur okkur frá Guði.  Jesús dó til að endurreisa það sem glataðist í syndafallinu.  Við trúum að við verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingarinnar fyrir daglega krossfestingu hins fallna eðlis (Efesus 4:11-13 og Fil. 3:10-12).

Guðleg lækning
Þjáningar Drottins Jesú Krists greiddu gjaldið fyrir lækningu líkama okkar og frelsun sálna okkar (Jes. 53:5, Matt. 8:17, I Pét. 2:24). Guðleg lækning fyrir líkamann er hluti af friðþægingunni og er ætluð öllum þeim er trúa.

Brauðsbrotning
Brauðsbrotning er fólgin í því að neyta brauðs og víns og er samkvæmt ritningunum sagt vera líkami og blóð Drottins Jesú Krists (Matt. 26:26-29).  Fyrir trú og smurningu Heilags Anda sameinast nærvera blóðs og líkama Jesú Krists, brauðinu og víninu.  Fyrir því talar Jesú um brauðið og vínið sem líkama sinn og blóð.  Brauðsbrotningin er til minningar um þjáningu og dauða Jesú Krists (I Kor 11:26). Hún er einnig spádómur um endurkomu Drottins og ætti að ástunda af öllum trúuðum þar til hann kemur aftur (I Kor. 11:26).

Tíund
Við trúum því að tíund, fórnir og almennar gjafir séu áætlun Guðs til að mæta efnislegum þörfum Bænahúsins og að góð fræðsla sé til staðar.  Tíund kom fyrst fram undir lögmáli trúarinnar hjá Abraham, hélt áfram undir lögmáli Móse og var síðan staðfest af Jesú. (Mal. 3:10, Matt. 23:23).

Endurkoma Krists
Við trúum því að endurkoma Krists í persónu verði á sama hátt og hann fór (Post. 1:11). Þetta verður sýnileg koma Drottins með brúði sína og verður eftir burthrifninguna og brúðkaup lambsins. (Op. 19:11-16.)

Þúsund ára ríkið
Við trúum því að Jesús muni koma aftur sem dómari í lok tímanna og stofnsetja þúsund ára ríkið á jörðinni. (II Þess. 1:7, Op. 19:11-14, Róm 11:26-27, Op. 20:1-7).

Upprisa dauðra og dómur
1. Jesú reis upp frá dauðum sem frumgróði og með honum sofnaðir helgir menn. Það er hinn fyrsti hluti upprisunnar.
2. Við trúum að Drottinn Jesús muni birtast á himni til að hrífa þá í burtu sem taldir verða verðugir (burthrifningin). Lúk. 21:36, I Þess. 4:15-17, 2:19, I Kor 15:51-56. Fyrirheiti burthrifningarinnar er fyrir alla þá sem lifa sigrandi trúarlífi. Við trúum því að upprisu dauðra verði þannig varið að í ljós muni koma mismunandi stig dýrðar eftir andlegum vexti hvers og eins. I Kor. 15:41-42.
3. Margir trúaðir sem ekki lifa sigrandi lífi, munu missa af burthrifningunni, en þeir munu fá tækifæri í þrengingunni miklu og þeir munu upp rísa við lok þeirra. Op. 6:10, 15:21, 20:5.
4. Aðrir dánir munu upp rísa við upprisu allra dauðra. Jóh 5:28-29, Op. 20:7-15, 21:8.

 

  Bænahúsið | Fagraþing 2a | 203 Reykjavík Ísland | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370